Ísland lýsir yfir áhyggjum af fangabúðum Kínverja

Yfir einni milljón úígúra er haldið í fangabúðum í Xinjiang …
Yfir einni milljón úígúra er haldið í fangabúðum í Xinjiang í Kína. AFP

Ísland er í hópi 39 ríkja sem lýsa yfir þungum áhyggjum af ástandi mannréttinda í héruðunum Xinjuang og Tíbet, sem og þróun í Hong Kong. Ályktunin var borin upp á fundi Sameinuðu þjóðanna í New York og stóðu Bandaríkin, Japan og flest ríki Evrópusambandsins að henni.

Í ávarpinu er rifjað upp að fimmtíu sérstakir erindrekar á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna hafi sent frá sér ákall í júní sl. þar sem farið var fram á það við stjórnvöld í Kína að virða mannréttindi, ekki síst í Xinjiang og Tíbet. Er tekið undir þetta ákall í ályktuninni.

Þá eru kínversk stjórnvöld gagnrýnd fyrir að halda meira en milljón múslimum í Xinjiang-héraði í eins konar „pólitískum endurmenntunarbúðum“ líkt og margsannað þykir. Lýsa ríkin áhyggjum af fregnum af grófum mannréttindabrotum í þessu samhengi. Fara ríkin fram á að Kínverjar leyfi óháðum eftirlitsmönnum frá Sameinuðu þjóðunum samstundis að kanna stöðu mála í héraðinu.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch fögnuðu því hve mörg ríki hefðu skrifað undir ályktunina, þrátt fyrir hótanir Kínverja gagnvart ríkjum sem stíga fram.

Ekki leið þó á löngu þar til fulltrúi Pakistan í mannréttindanefndinni steig á svið og las upp yfirlýsingu 55 ríkja, þar á meðal Kína, þar sem gagnrýndar eru allar tilraunir til að nota ástandið í Hong Kong sem afsökun fyrir íhlutun í innanlandsmálefni Kína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert