Kjarnavopn úr greipum manna?

Fortíð og framtíð. Myndefni varpað á vegg og brjóstmynd af …
Fortíð og framtíð. Myndefni varpað á vegg og brjóstmynd af Frans Jósef 1. Austurríkiskeisara og konungi Ungverjalands í Hofburg-höllinni í Vín, sem áður var aðsetur keisaraættarinnar en hýsti nú ráðstefnu um þessi tímamót mannkyns. AFP

Ríki heimsins ættu að koma á fót regluverki yfir gervigreindarvopn á meðan þau eru enn á fyrstu stigum þróunar.

Þetta var niðurstaða alþjóðlegrar ráðstefnu sem lauk í Vínarborg í liðinni viku, þar sem málið var nefnt „Oppenheimer-augnablik“ okkar tíma.

Bent var á að rétt eins og byssupúður og kjarnavopn, þá gæti gervigreind gjörbylt hernaði og raunar gert hinar ýmsu deilur mannanna óþekkjanlegar frá þeim sem nú eru uppi. Og um leið mun banvænni.

„Þetta er „Oppenheimer-augnablik“ okkar kynslóðar, þar sem spenna í alþjóðastjórnmálum gæti leitt meiriháttar vísindauppgötvun niður braut sem yrði mjög hættuleg mannkyninu,“ segir í opinberri bókun ráðstefnunnar.

Vísað er til bandaríska eðlisfræðingsins Roberts Oppenheimers, sem í síðari heimsstyrjöldinni stýrði Los Alamos-tilraunastofunni í Manhattan-verkefninu, og hefur verið kallaður faðir kjarnavopna.

Langdrægt flugskeyti, framleitt til að bera kjarnaodda á skotmörk handan …
Langdrægt flugskeyti, framleitt til að bera kjarnaodda á skotmörk handan heimshafanna, tekur á loft á hernaðaræfingu í Rússlandi í október. AFP

Ber skylda til að bregðast við

Stjórnvöld í Austurríki skipulögðu og hýstu ráðstefnuna í Vín, þar sem fleiri en þúsund manns frá 140 ríkjum tóku þátt, þar á meðal stjórnmálaleiðtogar, sérfræðingar og fulltrúar ýmissa samtaka.

„Okkur ber skylda til að bregðast við og festa í sessi þær reglur sem við þurfum til að verja mannkynið,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu sem gefin var út eftir ráðstefnuna, þar sem segir enn fremur að valdbeiting þurfi alltaf að vera eftir höfði mannanna.

Með aðstoð gervigreindar má breyta alls kyns vopnum í sjálfvirk kerfi, þökk sé skynjurum sem stýrt er af algrími sem svo leyfir tölvunni að sjá og skynja heiminn, ef svo má segja.

Þar með má hafa uppi á mennskum skotmörkum, velja þau og ráðast á – eða skotmörk sem innihalda manneskjur – án þess að önnur manneskja hafi átt þar hlut að máli.

Flest slík vopn eru enn á hugmynda- eða prófunarstigi, en stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu þykir hafa leitt fram í dagsljósið brot af þeim möguleikum sem fyrir hendi eru.

Úkraínskir hermenn setja af stað könnunardróna í Donetsk-héraði í apríl.
Úkraínskir hermenn setja af stað könnunardróna í Donetsk-héraði í apríl. AFP

Viti borin og vígbúin vélfygli

Fjarstýrðir orrustudrónar eru þannig ekki nýir af nálinni, en vélfyglin vígbúnu verða óðum sjálfstæðari og lúta því sífellt minni stjórn sérstakra drónaflugmanna. Og þannig háttar til beggja vegna skotgrafanna.

„Sjálfvirk vopnakerfi munu brátt þekja heimsins vígvelli,“ sagði austurríski utanríkisráðherrann Alexander Schallenberg er hann setti ráðstefnuna á mánudag fyrir viku.

Lagði hann áherslu á að nú væri upp runnin „stundin til að ná saman um alþjóðlegar reglur og viðmið til að tryggja mennska stjórn“.

Austurríki, sem er yfirlýst hlutlaust ríki og hefur talað fyrir afvopnun ríkja á alþjóðavettvangi, lagði í fyrra fram fyrir Sameinuðu þjóðirnar fyrstu ályktunartillöguna um að reglubinda sjálfvirk vopnakerfi. Alls studdu 164 ríki tillöguna.

Tækju yfirlýsingu fagnandi

Bandarísk stjórnvöld hafa hvatt Kína og Rússland til að lýsa því yfir, eins og Bandaríkin og önnur ríki hafa þegar gert, að einungis manneskjur muni geta tekið ákvarðanir um beitingu kjarnavopna. Gervigreind megi þar hvergi koma nærri.

Paul Dean, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna á sviði vopnaeftirlits, fælingar og stöðugleika, tjáði blaðamönnum þetta á sérstökum fundi á fimmtudag. Kvað hann ríkisstjórnina í Washington hafa tekið á sig skýra og sterka skuldbindingu um að menn hefðu fulla stjórn yfir kjarnavopnum. Lét hann fylgja að Frakkland og Spánn hefðu gert slíkt hið sama.

„Við myndum fagna álíka yfirlýsingu frá Kína og Rússlandi,“ sagði Dean. „Við teljum þetta mjög mikilvægt viðmið þegar kemur að ábyrgri hegðun og við teljum einnig að þessu yrði fagnað mjög í P5-samhenginu,“ bætti hann við og vísaði þar til þeirra fimm ríkja sem eiga fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Antony Blinken og Wang Yi ganga til fundar í Peking …
Antony Blinken og Wang Yi ganga til fundar í Peking þann 26. apríl. AFP

Kína vill annað samkomulag

Ríkisstjórnin vestanhafs hefur að undanförnu reynt að dýpka viðræður við Kína um annars vegar kjarnavopnastefnu ríkjanna og hins vegar vöxt gervigreindar á alþjóðavísu.

Umfang gervigreindartækni bar á góma í víðtækum viðræðum utanríkisráðherra ríkjanna beggja, Antonys Blinkens og Wangs Yi, í Peking hinn 26. apríl. Í kjölfarið var ákveðið að fyrstu tvíhliða viðræðurnar um málaflokkinn yrðu haldnar á næstu vikum.

Tók Blinken fram við það tækifæri að ríkin myndu deila skoðunum sínum á því hvernig best væri að hafa stjórn á áhættunni sem tækninni fylgir.

Bandarískir og kínverskir embættismenn hófu viðræður um kjarnavopn að nýju í janúar, sem hluta af því að koma samtali hermálayfirvalda ríkjanna aftur í eðlilegt horf. Ekki er þó búist við að formlegar viðræður um takmörkun vígbúnaðar muni eiga sér stað á næstu misserum, en í Kína er stöðugt unnið að því að efla og bæta kjarnavopnabúrið.

Stjórnvöld þar í landi hvöttu til þess í febrúar að helstu kjarnavopnaveldin myndu fyrst ná samkomulagi um að ráðast aldrei að fyrra bragði hvert á annað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert