Óttast að stríðsglæpir hafi verið framdir

Eþíópískur sérsveitarmaður.
Eþíópískur sérsveitarmaður. AFP

Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, hefur farið fram á rannsókn fari á þeim fregnum að mörg hundruð óbreyttra borgara í Tigray-héraði í norðurhluta Eþíópíu hafi verið myrtir. Reynist það rétt væri um stríðsglæp að ræða. 

Fram kemur á vef BBC, að fréttir hafi borist af því að árás hafi verið gerð á bæ í héraðinu og íbúar þar stungnir eða höggnir til bana með sveðjum. 

Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, segir að liðsmennTigray-frelsishreyfingarinnar beri ábyrgð á fjöldamorðinu. Þessu neita talsmenn hreyfingarinnar. 

Abiy Ahmed Ali, forsætisráðherra Eþíópíu, hlaut í fyrra friðarverðlaun Nóbels.
Abiy Ahmed Ali, forsætisráðherra Eþíópíu, hlaut í fyrra friðarverðlaun Nóbels. AFP

Leiðtogi þeirra, Debretsion Gebremichael, segir í samtali við AFP-fréttastofuna, að þessar ásakanir ættu ekki við nein rök að styðjast. 

Abiy segir að æði hafi runnið á liðsmenn hreyfingarinnar eftir að stjórnarhermenn „frelsuðu“, eins og það er orðað, vesturhluta Tigray. Ráðherrann segir að liðsmenn Tigray-frelsishreyfingarinnar hafi framið fjöldamorð í bænum Mai-Kadra, sem er við suðvesturhluta Tigray. Þar hafi saklaust fólk verið myrt með grimmilegum hætti. 

Sjónarvottar segja að sveitir sem eru hliðhollar frelsishreyfingunni, beri ábyrgð á ódæðinu, en það voru mannréttindasamtökin Amnesty International sem fyrst greindu frá árásinni. 

Ungmenni með grímu sést hér við eþíópíska fánann í Addis …
Ungmenni með grímu sést hér við eþíópíska fánann í Addis Ababa, höfuðborg landsins. AFP

Fáist þetta staðfest, þá er þetta í fyrsta sinn sem svo margir óbreyttir borgarar falla í Eþíópíu frá því átök á milli stjórnarhersins og frelsishreyfingarinnar brutust út í síðustu viku. 

Fram kemur á vef BBC, að það hafi reynst erfitt að fá upplýsingar um átökin þar sem símalínur og netsamband hafi legið niðri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert