Þörf er á um 200 milljónum dollara, eða tæpum 30 milljörðum króna, til að útvega þúsundum flóttamanna aðstoð sem hafa streymt til Súdans frá Eþíópíu þar sem átök hafa verið upp á síðkastið. Þetta segja starfsmenn Sameinuðu þjóðanna.
Nú þegar hafa yfir 30 þúsund manns farið yfir landamærin. Sameinuðu þjóðirnar búast við því að allt að 200 þúsund manns muni flýja átökin í Eþíópíu á næstu sex mánuðum.
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, fyrirskipaði árásir á Tigray-héraðið í norðurhluta landsins 4. nóvember með það að markmiði að steypa valdamesta flokki héraðsins, TPLF, af stóli. Hann sakar flokkinn um að reyna að grafa undan ríkisstjórn hans.