Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, hefur gefið leiðtogum stjórnarandstæðinga úr hópi Tigraya í norðurhluta landsins 72 klukkustundir til þess að gefast upp, ellegar muni eþíópískar hersveitir hefja innrás í Mekele, höfuðstað Tigraya.
„Leiðangur ykkar í átt að eyðileggingu er að enda komin og við hvetjum ykkur eindregið til þess að gefast friðsamlega upp innan 72 klukkustunda,“ segir í yfirlýsingu Ahmed, sem beint var að leiðtogum stjórnarandstæðinga.
Þjóðarbrot Tigraya í Eþíópíu hefur mátt þola árásir stjórnvalda undanfarið vegna ásakana um að TPLF, stjórnmálaflokkur Tigraya, reyni að grafa undan stjórnvöldum og forsætisráðherranum sjálfum.
Þá er ekki langt síðan að yfirmaður í eþíópíska hernum sakaði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), um að liðsinna Tigrayum, en Ghebreyesus er sjálfur af þjóðarbroti Tigraya. Hann brást ekki við ásökununum.
Um 109 milljónir manna búa í Eþíópíu, þar af eru tæplega 9 milljónir Tigrayar, langflestir kristinnar trúar.