Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, segir að stjórnarher landsins sé nú kominn með fullt vald á Mekele, höfuðstað Tigray. Leiðtogi stjórnarandstæðinga úr hópi Tigray segir að áfram verði barist til að verja sjálfstjórn svæðisins.
Hundruð hafa látist og þúsund eru á vergangi vegna átakanna sem byrjuðu fyrr í þessum mánuði eftir að Abiy tilkynnti um aðgerðir gegn TPLF, stjórnmálaflokki Tigray, en hann sakar liðsmenn flokksins um árásir gegn þeim hluta eþíópíska hersins sem hafði aðsetur í Mekele. Sakaði hann TPLF jafnfram um að grafa undan stjórnvöldum og forsætisráðherranum sjálfum.
Þá er ekki langt síðan að yfirmaður í eþíópíska hernum sakaði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), um að liðsinna Tigrayum, en Ghebreyesus er sjálfur af þjóðarbroti Tigray. Hann brást ekki við ásökununum.
Um 109 milljónir manna búa í Eþíópíu, þar af eru tæplega 9 milljónir Tigrayar, langflestir kristinnar trúar.