Fleira fólk fórst í flugslysum farþegaflugvéla árið 2020 heldur en árið á undan þrátt fyrir að fjölda flugferða hafi fækkað til muna vegna kórónuveirufaraldursins.
Hollenskt ráðgjafafyrirtæki í flugmálum, To70, segir að 299 manns hafi farist í flugslysum í farþegaflugvélum víðs vegar um heiminn á síðasta ári, sem er aukning frá árinu 2019 þegar þeir voru 257 talsins.
Vefsíðan Flightradar 24 greindi frá því að flugferðum farþegavéla hafi fækkað um 42% í fyrra, að því er BBC greindi frá.
Samkvæmt yfirlýsingu frá To70 ná tölurnar yfir dauða fólks vegna slysa í farþegaflugvélum, þar á meðal ef þær hafa verið skotnar niður.
Þegar rýnt er í tölurnar fyrir árið 2020 kemur í ljós að 176 fórust þegar farþegaflugvél frá Úkraínu var skotin niður af írönskum hersveitum í janúar. Þetta er næstum helmingur allra sem fórust í flugslysum í fyrra. Einnig eru í tölunum dauðsföll 98 manns í maí þegar flugvél frá Pakistan brotlenti í borginni Karachi. Í bráðabirgðaskýrslu kom fram að mannleg mistök hafi valdið slysinu.
Að sögn To70 fækkaði slysum á síðasta ári um rúman helming frá árinu áður. Þau voru 86 árið 2019 en 40 árið 2020. Aðeins fimm af þessum 40 slysum urðu fólki að bana.