Ákvörðun verðandi forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, um að biðja þingið um að veita milljónum innflytjenda réttarstöðu hefur komið mörgum löglærðum á óvart ekki síst hversu málefnið hefur klofið demókrata og repúblikana, jafnvel flokkssystkini. Biden mun undirritan tilskipunina á miðvikudag, á innsetningardaginn sjálfan.
AP-fréttastofan greinir frá þessu og hefur eftir heimildum. Um er að ræða um það bil 11 milljónir innflytjenda sem komu með ólöglegum hætti til Bandaríkjanna. Þar með snýr hann algjörlega við stefnu Donalds Trumps forvera síns í starfi sem hafði það sem eitt af helstu stefnumálum sínum að stöðva komu óskráðra innflytjenda til landsins. Þetta er einkum fólk frá Mið-Ameríku sem kemur yfir landamæri Mexíkó.
Barack Obama hét því á fyrsta ári sínu í Hvíta húsinu en gerði ekkert í málinu fyrr en á seinna kjörtímabilinu.
Að sögn Marielena Hincapie, framkvæmdastjóra National Immigration Law Center, er þetta söguleg breyting frá stefnu Trumps gagnvart innflytjendum og þýðir að allir þeir sem eru óskráðir í landinu geti nú sótt um ríkisborgararétt. Ef þetta nær fram að ganga verða þetta sennilega stærstu breytingarnar í því að veita fólki ríkisborgararétt frá því Ronald Reagan þáverandi forseti Bandaríkjanna veitti tæplega þremur milljónum manna grið árið 1986.
Ron Klain, sem verður starfsmannastjóri Bidens, sagði í gær að Biden myndi senda innflytjendafrumvarpið til þingsins á sínum fyrsta degi í starfi.
Lögfræðingar sem starfa í þessum málaflokki hafa verið upplýstir um helstu atriði frumvarpsins og segja þeir sem AP fréttastofan ræddi við að það komi þeim á óvart hversu fljótt Biden ætli að bregðast við. Því þeir hafi fengið sama loforð frá Obama á sínum tíma þegar hann var kjörinn árið 2008 en það hafi ekki staðist.
Ómögulegt er að vita nákvæmlega hversu margir séu með ólöglegum hætti í Bandaríkjunum Pew Research miðstöðin áætlaði árið 2017 að þeir væru 10,5 milljónir. Innanríkisráðuneytið taldi árið 2015 að þeir væru um 12 milljónir og af þeim væru meira en helmingur frá Mexíkó. Um 80% alls hópsins hafði þá verið í Bandaríkjunum í tíu ár eða lengur.