Útlit fyrir að ríkisstjórn Löfvens sé sprungin

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Borin hefur verið upp vantrauststillaga á hendur ríkisstjórn Stefans Löfvens í Svíþjóð. Sænska þingið mun kjósa um tillöguna á mánudag en þetta staðfesti forseti þingsins Andreas Norlen í dag. Kjósi þingið með vantrauststillögunni munu afleiðingarnar verða að annaðhvort þurfi að mynda nýja ríkisstjórn eða þá að boðað verði til kosninga í haust. Kjörtímabilinu átti ekki að ljúka fyrr en haustið 2022.

Umdeilt þak á leiguverði íkveikjan 

Kveikjan að vantrauststillögunni er sú að ríkisstjórnin samþykkti að aflétta þaki sem sett hafði verið á leiguverð á nýju húsnæði. Aflétting á leiguþakinu þýðir að leigusalar geta sett eins hátt verð og þá lystir á húsnæði sitt, en þetta þykir ekki í anda húsnæðisstefnu Svíþjóðar og ákvörðunin talin svik við stjórnarsáttmálann sem undirritaður var við myndun stjórnarinnar.

Meirihluti þingsins vill Löfven burt

Hægri íhaldsflokkurinn Svíþjóðardemókratar á frumkvæðið að vantrauststillögunni en Vinstriflokkurinn, Kristilegir demókratar og miðjuflokkurinn Moderaterna styðja tillöguna. Haldist stuðningur flokkanna við tillöguna þar til á mánudag eru því verulegar líkur á að ríkisstjórn Stefans Löfvens sé sprungin.

„Þessir fjórir flokkar skulda nú sænsku þjóðinni valkosti um hvaða stjórnarmyndunarmöguleikar séu fyrir hendi,“ segir Stefan Löfven um málið.

Einsdæmi í sænskum stjórnmálum

Falli ríkisstjórn Löfvens verður það einsdæmi í sænskri stjórnmálasögu, en sænska þingið hefur 11 sinnum fellt vantrauststillögur. Þá mun Löfven hafa viku til þess að ákveða hvort boðað verði til kosninga eða hvort hann einfaldlega segi af sér. Segi hann af sér mun forseti þingsins veita stjórnarmyndunarumboð þeim sem hann telur líklegastan til að geta myndað nýja stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert