Stefnir í að útgáfu Apple Daily verði hætt

Dagblaðið Apple Daily hef­ur stutt við lýðræðis­hreyf­ingu Hong Kong.
Dagblaðið Apple Daily hef­ur stutt við lýðræðis­hreyf­ingu Hong Kong. AFP

Ólíklegt er talið að dagblaðið Apple Daily sem gefið er út í Hong Kong geti greitt starfsfólki sínu laun og stefnir því í að útgáfu verði hætt en stjórn blaðsins mun taka ákvörðun á föstudag.

Kínversk stjórnvöld frystu eigur félagsins Next Digital Limited, sem gefur blaðið út, með heimild nýrra öryggislaga sem sett voru á síðasta ári. Blaðið hefur stutt við lýðræðishreyfingu landsins.

Jimmy Lai, eigandi blaðsins, var einn hinna fyrstu sem ákærðir voru á grundvelli laganna og situr nú í fangelsi. Lai sem er 73 ára getur átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann dæmdur fyrir glæpi á grundvelli öryggislaganna.
Jimmy Lai, eigandi blaðsins, gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.
Jimmy Lai, eigandi blaðsins, gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. AFP

Aðalritstjóri og framkvæmdastjóri útgáfunnar eru í haldi eftir áhlaup öryggislögreglu á ritstjórnarskrifstofurnar í liðinni viku. Þeir eru ákærðir fyrir leynimakk við erlent ríki eða önnur utanaðkomandi öfl sem ógna öryggi kínverska ríkisins.

Mark Simon, aðstoðarmaður Lais, segir frystingu eigna blaðsins gera því nánast ókleift að halda áfram starfsemi. Hann segir í samtali við CNN-fréttastofuna að fjárskortur sé þó ekki vandamálið, enda eigi blaðið 50 milljónir dala í banka.

Vandinn sé sá að öryggisráðherrann og lögregla leyfi hvorki að blaðamönnum verði greidd laun sín né að birgjar fá greitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert