Andspyrnuhreyfing í Tigray-héraði í norðurhluta Eþíópíu hefur náð aftur völdum á höfuðstað héraðsins, Mekelle, og hefur fólk ruðst á götur út til að fagna og hafa embættismenn eþíópíska ríkisins þurft að flýja.
Eþíópísk stjórnvöld tóku yfir Mekelle í nóvember á síðasta ári í kjölfar þess að andspyrnuhreyfingin mótmælti pólitískum umbótum á svæðinu og náði yfirráðum yfir herstöðvum eþíópíska hersins. Eþíópísk stjórnvöld hafa nú lýst yfir vopnahléi vegna mannúðarsjónarmiða.
Átök milli andspyrnuhreyfingar Tigray-héraðs og eþíópíska hersins á undanförnum mánuðum hafa orðið þúsundum að bana og hrundið af stað hungursneyð sem talin er ná til um 350 þúsund íbúa héraðsins. Rúmlega tvær milljónir hafa orðið að flýja heimili sín, í þessu öðru fjölmennasta ríki Afríku.
Áður höfðu borist fréttir af því að átök hefðu tekið sig upp að nýju rétt utan við Mekelle, milli andspyrnuhreyfingarinnar og eþíópíska hersins. Snörp framganga andspyrnuhreyfingarinnar í gær leiddi þó til þess að yfirráð yfir Mekelle náðust að nýju og er það talið marka vatnaskil í átökunum.
Í yfirlýsingu þess er kallað var „stjórnvöld hins sjálfstæða Tigray-ríkis“, sem birtist í gær, er sigri andspyrnuhreyfingarinnar fagnað og er fólk hvatt til að vera áfram á varðbergi allt þar til allt Tigray er laust við afskipti eþíópíska ríkisins.