Eyðileggingin er mikil og eykst hratt

Hrauná rennur til byggða á La Palma. Minnst 100 hús …
Hrauná rennur til byggða á La Palma. Minnst 100 hús eru ónýt. AFP

Um 100 heimili hafa nú orðið eldgosinu á La Palma að bráð. Í morgun var gert ráð fyrir að um 20 hús hafi eyðilagst og er því nokkuð ljóst að eyðileggingarmáttur gossins sé mikill. 

Gosið spýtir hrauni og ösku í átt að nærliggjandi íbúðahverfum og hafa um 5 þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín. 

Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að verkefni tengd gosinu hafi ekki komið á borð borgaraþjónustu ráðuneytisins. 

„Eins og staðan er núna hafa um 100 heimili eyðilagst og um 5 þúsund manns hefur verið gert að flýja heimili sín,“ er haft eftir Lorenu Hernandez Labrador, fulltrúa almannavarna á svæðinu, í frétt AFP um málið. 

Íslendingur lýsir ástandinu

Þórarinn Einarsson, íbúi á La Palma, ræddi við mbl.is í gær um gosið. Hann segist hafa þurft að rölta aðeins upp í hæð nærri heimili sínu til þess að sjá gosstrókinn.

Hann sagði þá að óhjákvæmilegt að hraun myndi renna til byggða og valda þar usla, en á þeim tíma hafði það ekki enn gerst að því er vitað var til. 

Þórarinn lýsti því einnig að mikil hætta sé á að stórir gróðureldar kvikni, enda sá hann til elds á jörðu niðri í kringum gosstöðvarnar þegar hann ræddi við blaðamann í gær. Sagði hann að hann sæi þar til gróðurelda í kringum gosið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert