30.000 íbúar á La Palma haldi sig innandyra

Cumbre Vieja-eldfjallið rumskaði í haust og hefur gert íbúum La …
Cumbre Vieja-eldfjallið rumskaði í haust og hefur gert íbúum La Palma lífið leitt. Enginn hefur látist en hátt í 3.000 byggingar hafa eyðilagst. AFP

Spænsk yfirvöld hafa fyrirskipað rúmlega 30.000 íbúum á Kanaríeyjunni La Palma, um 38% allra íbúa, að halda sig innandyra út af eitruðum gastegundum sem leggur yfir svæðið frá Cumbre Viejo-eldfjallinu sem hefur gosið undanfarna mánuði. 

Undanfarna daga hefur lítið borið á eldfjallinu en staðan breyttist snögglega í gær en þá urðu nokkrar sprengingar í fjallinu með tilheyrandi öskuskýi og reyk. 

Spænska svæðisstjórnin hefur fyrirskipað íbúum þriggja sveitarfélaga að halda sig innandyra þar sem há gildi brennisteinsoxíðs mælist á svæðinu. 

Hér má sjá hús sem liggja nú undir ösku og …
Hér má sjá hús sem liggja nú undir ösku og hrauni. AFP

„Lokið dyrum, gluggum og komið í veg fyrir að loft komist inn,“ segir í yfirlýsingu frá yfirvöldum. Fólk var einnig beðið um að koma sér fyrir á stöðum inni í húsum sem eru lengst frá dyrum og gluggum. 

Fólk var ennfremur hvatt til að slökkva á loftkælingum, hitakerfum og nota límband til að innsigla glugga og dyr.

„Ef þið eruð utandyra, gætið ykkar á því að bifreiðin er ekki öruggur staður og komið ykkur því fyrir í fyrstu byggingu sem þið finnið,“ segja yfirvöld ennfremur. 

Ríflega 7.000 íbúar hafa þurft að flýja heimili sín vegna eldgossins sem hófst 19. september. Mikið magn hrauns hefur runnið niður hlíðar fjallsins og endað ofan í sjó. 

Enginn hefur látið lífið af völdum gossins en yfir 2.800 byggingar hafa eyðilagst. 

Þetta er lengsta eldgos í sögu La Palma og það þriðja á einni öld. Síðast gaus árið 1971 og þar á undan árið 1949. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert