Forsætisráðherra Spánar kominn til La Palma

Eldgosið í fjallinu Cumbre Vieja er tilkomumikið.
Eldgosið í fjallinu Cumbre Vieja er tilkomumikið. AFP

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, er kominn til eyjunnar La Palma á Kanaríeyjum þar sem eldgos braust út í gær með þeim afleiðingum að um fimm þúsund manns hafa yfirgefið heimili sín.

Myndir hafa sýnt hraun renna niður hlíðar eldfjallsins Cumbre Vieja og eyðileggja þó nokkur hús.

Hraun nálgast hús á svæðinu.
Hraun nálgast hús á svæðinu. AFP

Sanchez sagði yfirvöld fylgjast grannt með eldum sem gætu brotist út vegna hraunsins. Herinn og fleiri hjálparaðilar hafa verið kallaðir út til aðstoðar.

Eldfjallið gaus síðast fyrir 50 árum síðan. Það er staðsett suður af eyjunni La Palma þar sem um 80 þúsund manns búa.

Jonas Perez, leiðsögumaður á svæðinu, sagðist í samtali við BBC enn finna fyrir skjálftum vegna eldgossins.

„Það ótrúlega sem ég hef aldrei upplifað áður er hávaðinn sem kemur frá eldfjallinu. Hann hljómar eins og 20 herþotur að taka á loft og þetta er svakalegur hávaði, alveg magnað,” bætti hann við.

Fólki úr fjórum bæjum  hefur verið gert að yfirgefa heimili sín, þar á meðal úr El Paso og Los Llanos de Aridane. Bráðabirgðaskýlum hefur verið komið upp. Engar fregnir hafa borist af meiðslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert