Dönsku hjónin hafa tapað öllu á eyjunni

Reykur stígur upp af hrauninu eftir að það náði niður …
Reykur stígur upp af hrauninu eftir að það náði niður að Atlantshafi í nótt. AFP

„Allt er eyðilagt. Við höfum tapað öllu á okkar ástkæru eyju. Þetta er mjög sorglegt. Inge og ég erum í rusli.“

Þetta segir danski eftirlaunaþeginn Rainer Cocq, með kökkinn í hálsinum, í samtali við spænska dagblaðið El Mundo.

Hús hans og eiginkonu hans, Inge Bergedorf, sem kallað hafði verið kraftaverkahús eftir að hraunelfurin á La Palma virtist ætla að eira því, varð gosinu loks að bráð aðfaranótt þriðjudags.

Þar áður hafði húsið vakið mikla athygli, þar sem það stóð keikt á óbrinnishólma andspænis hrauninu sem rann niður gróðursælar hlíðar eldfjallaeyjunnar.

Hvarf hluti af lífinu okkar

Fermetrar hússins, fjörutíu og fimm talsins, ásamt garðinum hennar Inge þar sem hún ræktaði bæði pálmatré og drekatré, og viðamiklum vínekrum þeirra hjóna – allt er þetta horfið undir hraun.

„Með þessu hvarf hluti af lífinu okkar,“ segir Rainer í samtali við El Mundo.

Hraunið úr eld­fjall­inu Cumbre Vieja náði til sjáv­ar í nótt. Ótt­ast er að gasmeng­un ber­ist í kjöl­farið út í and­rúms­loftið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert