Hraunið úr eldfjallinu Cumbre Vieja á eyjunni La Palma á Kanaríeyjum hefur náð til sjávar. Óttast er að gasmengun berist í kjölfarið út í andrúmsloftið.
Stjórnvöld höfðu áður bannað alla umferð tveimur sjómílum frá staðnum þar sem hraunið rennur í sjóinn. Íbúar í nágrenninu voru einnig hvattir til að halda sig heima við.
Í meðfylgjandi myndskeiði frá AFP má sjá þegar hraunið fór út í sjóinn með tilheyrandi reykjarmekki.
Cumbre Vieja, sem er á suðurhluta La Palma, gaus fyrst 19. september. Síðan þá hefur hraun runnið hægt og rólega í átt að sjónum. Flugvellinum á eyjunni var lokað á laugardaginn en hann var opnaður aftur daginn eftir.