Breytt vindátt gæti þýtt nýjar hættur

Enn spýst hraun úr gígnum á Kanaríeyjum.
Enn spýst hraun úr gígnum á Kanaríeyjum. AFP

 Hraunið sem nú rennur til sjávar vegna eldgossins á La Palma eyjunni, sem er hluti af Kanarí eyjaklasanum, þekur nú svæði er samsvarar um 25 fótboltavöllum, eða um 20 hektara.

Landmassinn sem hraunið er að mynda í sjónum hefur tvöfaldast að stærð frá því í morgun. Þetta er haft eftir Eldfjallastofnun Kanaríeyja.

Þrátt fyrir að hættan á sprengingum og skýjum úr eiturgufum hafi ekki raungerst óttast sérfræðingar þar ytra að breytingar á vindátt gæti falið í sér nýjar hættur.  

Sterk brennisteinslykt gæti blásið yfir eyjuna

Veðurspá gerir nú ráð fyrir að vindátt breytist en hingað til hefur vindátt verið hagstæð og eiturgufum að mestu blásið á haf út.

Með breyttri vindátt gæti möguleikinn á sterkri brennisteinslykt á eyjunni aukist til muna, hefur AFP eftir Ruben Fernandez, sérfræðingi í neyðarnefnd eldfjallastofnunarinnar.

Frá upphafi gossins, þann 19. september síðastliðinn, hafa þúsundir þurft að flýja heimili sín og hefur hraunbreiðan gjöreyðilagt heimili, atvinnuhúsnæði og stóran hluta ræktarlands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert