Heilbrigðiskerfi Afganistans á barmi hruns

Alexander Matheou, forstjóri IFRC í Asíu, á blaðamannafundinum í Kabúl.
Alexander Matheou, forstjóri IFRC í Asíu, á blaðamannafundinum í Kabúl. AFP

Heilbrigðiskerfi Afganistans er við það að hrynja að sögn Rauða krossins. Fleiri en 2.000 heilsugæslustöðvum hefur nú verið lokað í landinu.

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) hefur varað við því skortur á fjármagni í kjölfar yfirtöku Talíbana í síðasta mánuði muni hafa verulega slæm áhrif á heilbrigðiskerfið.

Alexander Matheou, forstjóri IFRC í Asíu, sagði, á blaðamannafundi í Kabúl, að starfsfólk heilbrigðiskerfisins gæti samþykkt að vinna launalaust í nokkrar vikur í viðbót en bætti þó við:

„Þegar lyf klárast, þegar ekki verður lengur hægt að kveikja á ljósunum og þegar ekkert verður hægt að gera fyrir þá sem sækja þjónustu á heilsugæslustöðvarnar þá loka þau dyrunum.“

Blaðamannafundur í Kabúl.
Blaðamannafundur í Kabúl. AFP

Bóluefni mun renna út

Alþjóðaheilbrigðimálastofnunin WHO varaði við því í síðustu viku að ástandið í heilbrigðiskerfinu gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir baráttuna gegn kórónuveirunni. 

Einungis eitt prósent hafa fengið bóluefni við veirunni í Afganistan. Fleiri en milljón skammtar af bóluefni eru til í landinu en þeir munu renna út í lok árs.

Rauði hálfmáninn í Afganistan rekur 140 heilsugæslustöðvar um allt land og eru þær allar starfhæfar. Um milljón manns hafa sótt þjónustu hjá stöðvunum frá áramótum. 

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum þurfa 18 milljónir Afganga, meira en helmingur þjóðarinnar, sárlega á heilbrigðisþjónustu að halda.

Alþjóðasamfélagið hefur heitið 1,2 milljörðum dala í mannúðaraðstoð í Afganistan en það tekur tíma fyrir fjármagnið að berast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert