Flugvellinum á La Palma var í dag lokað vegna öskufalls. Er þetta í annað sinn sem loka hefur þurft flugvellinum vegna eldgossins sem hófst á spænsku eyjunni 19. september síðastliðinn.
„Sem stendur er flugvöllurinn ekki í notkun,“ sagði talskona flugvallarins við AFP og bætti því við að ráðast þyrfti í hreinsunarstarf á flugbrautinni áður en mögulegt væri að taka hana aftur í notkun. Þá sagði talskonan að flugvöllurinn verði að öllum líkindum opnaður aftur fljótlega.
Í gærkvöldi gaf flugfélagið Binter, sem sérhæfir sig í flugferðum til Kanaríeyja, það út að félagið myndi hvorki fljúga til né frá La Palma um óákveðinn tíma.
„Við munum ekki fljúga til La Palma fyrr en aðstæður hafa batnað og við getum flogið til og frá eyjunni með öruggum hætti,“ segir í tísti frá Binter.
CanaryFly hefur einnig aflýst sínum flugferðum til og frá La Palma.
Síðast var flugvellinum lokað vegna eldgossins 25. september. Hann opnaði aftur daginn eftir en flugvélar hófu sig hvorki á loft frá vellinum né lentu þar fyrr en nokkrum dögum síðar, 29. september.