Þrívíddarprentuð sjálfsvígsaðstoð í Sviss

Þrívíddarprentuðu hylkjunum er ætlað að aðstoða fólk við að binda …
Þrívíddarprentuðu hylkjunum er ætlað að aðstoða fólk við að binda endi á líf sitt. Ljósmynd/Sarco

Þrívíddarprentuð hylki sem ætlað er að aðstoða þá sem vilja binda endi á líf sitt gætu orðin tilbúin til notkunar í Sviss strax á næsta ári, að því er forsvarsmenn fyrirtækisins Sacro, sem stendur að þróun hylkisins, greina frá.

Sacro leitaði ráða hjá svissneskum lögfræðingi sem komst að því að notkun hylkisins bryti ekki í bága við svissnesk lög. Aðrir lögfræðingar hafa þó dregið niðurstöðu hans í efa.

Þá segja dánaraðstoðarsamtökin Dignitas ólíklegt að notkun hylkisins verði samþykkt í Sviss.

Dánar- og sjálfsvígsaðstoð er lögleg í Sviss en um 1.300 manns kusu að enda líf sitt með þeim hætti í landinu árið 2020.

Núverandi aðferð sem notuð er í þessum tilgangi í Sviss felur í sér að útvega þeim sem vill binda endi á líf sitt deyðandi vökva sem hann svo drekkur.

Dregur úr súrefnismagni sem leiðir til köfnunar

Hylkið frá Sacro er hins vegar yfirfullt af köfnunarefni, sem dregur hratt úr súrefnismagni og leiðir þar með til þess að einstaklingurinn sem inni í því liggur missir meðvitund og deyr svo á um það bil 10 mínútum.

Hylkið er virkjað innanfrá en sá sem notar hylkið getur einnig ýtt á neyðarhnapp vilji hann komast út úr hylkinu.

Forsvarsmenn Sacro báðu Daniel Huerliman, lögfræðing og lektor við háskólann St. Gallen í Sviss til að kanna hvort notkun hylkisins myndi brjóta einhver lög þar í landi.

Niðurstöður Huerliman bentu til þess að hylkið væri ekki lækningatæki og myndi þar af leiðandi ekki falla undir svissnesk lög um meðferðartæki, að því er hann greindi sjálfur frá í samtali við fréttastofu BBC.

Þá taldi hann notkun hylkisins ekki heldur brjóta í bága við lög um notkun köfnunarefnis, vopna né öryggisvara.

„Þetta þýðir að svissnesk lög ná ekki yfir notkun hylkisins,“ sagði hann.

Hönnuðurinn kallaður „læknirinn með ljáinn“

Verði notkun hylkisins leyfð í Sviss mun það þó ekki ganga kaupum og sölum á almennum markaði.

Þess í stað hyggst Philip Nitschke,lænir og hönnuður hylkisins, gera teikningarnar að hylkinu aðgengilegar öllum, þeim að kostnaðarlausu.

Markmiðið með þessu sé að draga úr læknisfræðilegum inngripum í dauða fólks.

„Við viljum einfalda þetta ferli og leyfa einstaklingnum að stjórna ferðinni sjálfur.“

Nitschke hefur lengi barist fyrir rétti fólks til að ráða eigin lífslokum og fyrir það hefur hann hlotið viðurnefnið „læknirinn með ljáinn“ (e. Dr. Death).

Til eru tvær frumtýpur af Sarco hylkinu en verið er að prenta það þriðja í Hollandi.

Nitschke hefur áður sætt gagnrýni fyrir hylkin og hafa sumir sagt framtíðarlegt útlit þeirra sveipa sjálfsvígi dýrðarljóma.

Ef ein­stak­ling­ar upp­lifa sjálfs­vígs­hugs­an­ir er hjálp­arsími Rauða kross­ins, 1717, op­inn all­an sól­ar­hring­inn. Einnig er net­spjall Rauða kross­ins, 1717.is, opið all­an sól­ar­hring­inn. Píeta-sam­tök­in veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218. Á net­spjalli á Heilsu­vera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkr­un­ar­fræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert