Að minnsta kosti 50 látnir vegna hvirfilbyls

Óttast er að tala látinna muni hækka enn frekar.
Óttast er að tala látinna muni hækka enn frekar. Ljósmynd/Twitter

Að minnsta kosti 50 eru látnir í Kentucky í Bandaríkjunum eftir að hvirfilbylur fór um nokkur ríki. Óttast er að tala látinna muni hækka enn frekar. 

Mikil eyðilegging hefur orðið í nokkrum sýslum í Kentucky en vindhraði hvirfilbylsins mældist um 200 mílur eða 320 kílómetrar á klukkustund þegar mest lét.

Andy Beshear, ríkisstjóri Kentucky, greindi frá þessu á blaðamannafundi snemma í morgun.

„Ég óttast að fleiri en 50 séu látnir í Kentucky. Tala látinna er líklega nær því að vera á milli 70 og 100, þetta er skelfilegt,“ sagði hann en neyðarástandi var lýst yfir fyrir miðnætti í gær.

Yfir 100 manns voru inni í kertaverksmiðju í Mayfield í Kentucky þegar hvirfilbylurinn skall á henni. „Við teljum að við höfum misst einhvern hluta þeirra einstaklinga,“ sagði Beshear.

Þá féll þak á vöruskemmu netverslunarrisans Amazon í Illinois. Ekki er vitað hve margir slösuðust en viðbragðsaðilar hafa talað um stórslys og að margir séu slasaðir.

Veðurstofa Bandaríkjanna hefur varað við hvirfilbyljum á nokkrum svæðum, þar á meðal Arkansas. Tennesse, Missouri og Illinois.





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert