Miðbærinn í tíu þúsund manna bænum Mayfield í Kentucky er eins og „eldspýtnahrúga“. Þetta sagði bæjarstjórinn Kathy O'Nan í samtali við fréttastofu CNN síðdegis í dag að staðartíma, eftir að hvirfilbylur reið yfir mörg ríki Bandaríkjanna í nótt og varð fjölda fólks að bana.
„Þegar ég gekk út úr ráðhúsinu í morgun, þá ... þetta leit út eins og eldspýtur,“ sagði O'Nan.
„Kirkjurnar í miðbænum hafa verið eyðilagðar, dómshúsið okkar, sem er auðvitað í miðju bæjarins, er rústir einar, vatnslagnirnar okkar virka ekki og það er ekkert rafmagn.“
Óveðrið sem skall á í nótt og skapaði fjölda fellibylja er líklega einn stærsti atburðurinn af þessu tagi í sögu landsins, sagði forsetinn Joe Biden nú fyrir skemmstu.
„Þetta er harmleikur. Og við vitum ekki enn hversu mörg líf töpuðust og hversu víðtækt tjónið er,“ sagði Biden í sjónvörpuðu ávarpi. Lofaði hann aðstoð alríkisins við þau fimm ríki sem óveðrið skaðaði.