Eitt versta óveður í sögu Bandaríkjanna

Eyðileggingin í Mayfield, Kentucky er gríðarleg.
Eyðileggingin í Mayfield, Kentucky er gríðarleg. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segir að stjórnvöld þar í landi munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að hjálpa þeim ríkjum sem verst hafa farið út úr hvirfilbyljum undanfarinna daga.

Um 70 manns létust í gær í Kentucky vegna hvirfilbyls sem tætti í sig heilu hverfin. Talið er að fjöldi látinna muni hækka yfir 100 manns hið minnsta, að því er fram kemur í frétt BBC um málið.

Kraftaverk ef fleiri finnast á lífi í verksmiðjunni

Biden forseti hefur þegar undirritað neyðarástandsyfirlýsingu, sem veiti fjárheimild til þess að ráðast í mikið hjálparstarf í Kentucky, því ríki sem verst fór út úr óveðrinu.

Biden sagði í sjónvarpsávarpi í gær að stormveðrið væri eitt það versta í sögu landsins.

Viðbragðsaðilar leita nú logandi ljósi að fólki sem fast er í rústum húsa í Mayfield, bæ í Kentucky sem hvirfilbylurinn skall beint á.

Fjölmörg heimili og fyrirtæki eru rústir einar.
Fjölmörg heimili og fyrirtæki eru rústir einar. AFP

Þar í bæ er verksmiðja hvaðan 40 manns hefur þegar verið bjargað af alls 110 sem þar voru staddir. Andy Beshear, ríkisstjóri Kentucky, segir að kraftaverk yrði ef fleiri fyndust á lífi í verksmiðjunni.

Lögregla og slökkvilið í Mayfield lyfta nú grettistaki við að bjarga meðborgurum sínum enda lögreglustöðin rústir einar og ýmiss búnaður slökkviliðsins laskaður.

Tugþúsundir Kentucky-búa eru án rennandi vatns og rafmagns.

Minnst tólf hafa látist í óveðri í öðrum ríkjum fyrir miðju Bandaríkjanna, til dæmis í Illinois þar sem sex starfsmenn í vöruhúsi tæknirisans Amazon fórust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert