O.J. Simpson laus allra mála

O.J. Simpson í dómssal árið 2008.
O.J. Simpson í dómssal árið 2008. AFP

O.J. Simpson er laus allra mála eftir að hafa verið á reynslulausn í rúm fjögur ár. Simpson er fyrrverandi ruðningstjarna en var ákærður fyrir morð á fyrrverandi eiginkonu sinni og vini hennar árið 1994. 

Simpson var þó ekki að afplána refsingu fyrir þann glæp, enda var hann sýknaður af morðákærunni, heldur fyrir vopnað rán sem hann framdi árið 2007 í Las Vegas. Hann var dæmdur til 33 ára fangelsisvistar en var veitt reynslulausn í júlí 2017.

Verðlaunaður fyrir góða hegðun

ABC hefur eftir Malcolm LaVergne lögmanni Simpson að O.J. sé „algjörlega frjáls maður núna,“ en honum var sleppt fyrr fyrir tilstilli góðrar hegðunar á reynslulausnartímanum.

Réttarhöldin yfir O.J. Simpson á tíunda áratug síðustu aldar voru kölluð réttarhöld aldarinnar en þau vöktu gríðarlega athygli. Í seinni tíð hefur áhugi fólks á þeim aukist samhliða sýningu fjölda sjónvarpsþátta um þau. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert