Afhjúpa fjölda látinna í leynigögnum Pentagon

Dagblaðið hefur gögnin undir höndum.
Dagblaðið hefur gögnin undir höndum. AFP

Skjöl innan úr Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, sem dagblaðið New York Times hefur undir höndum, sýna að loftárásir hersins í Mið-Austurlöndum hafa orðið þúsundum almennra borgara að bana. Margar þeirra hafi þá verið gerðar á grundvelli mjög gallaðra gagna.

Í mjög ýtarlegri umfjöllun blaðsins er vísað til leyniskjala þar sem fjallað er um fleiri en 1.300 tilfelli, þar sem borgarar hafa látið lífið sökum árásanna. Fullyrt er að þessar staðreyndir grafi verulega undan þeirri mynd sem stjórnvöld hafi reynt að halda uppi af stríðinu, þ.e. að það hafi verið háð með mjög nákvæmum sprengjuárásum.

120 bændur drepnir í stað 85 vígamanna

„Ekki ein einasta skrá inniheldur niðurstöðu þar sem talað er um misgjörð eða refsingu,“ segir meðal annars í umfjöllun blaðsins, sem mun vera sú fyrri af tveimur.

Enn fremur segir þar að opinber fjöldi almennra borgara sem látist hafa í árásunum hafi verið langt undir raunverulegri tölu.

Meðal annars er vísað til sprengjuárásar sem bandaríkjaher gerði 19. júlí 2016 í Norður-Sýrlandi, þar sem talið var að þrír hópar Íslamska ríkisins héldu sig. Greint var fyrst frá því að 85 vígamenn hefðu verið drepnir.

Raunveruleikinn var sá að 120 bændur og þorpsbúar voru drepnir með árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert