Nær öllu lokað í Hollandi næstu fjórar vikur

Mark Rutte í Haag í dag.
Mark Rutte í Haag í dag. AFP

Allar verslanir sem ekki selja nauðsynjavörur, veitingastaðir, krár, kvikmyndahús, söfn og leikhús, munu þurfa að loka dyrum sínum í öllu Hollandi á morgun.

Ekki má hefja starfsemi að nýju fyrr en 14. janúar, en skólar verða lokaðir fram til að minnsta kosti 9. janúar.

Þetta tilkynnti hollenski forsætisráðherrann Mark Rutte fyrir skemmstu.

Bara tveir gestir í hverju húsi

Fjöldi þeirra gesta sem fólk má hafa í húsum sínum verður einnig skorinn niður, úr fjórum í tvo, nema á jóladag.

„Ég stend hér í kvöld, þungbúinn í skapi,“ sagði Rutte þegar hann ávarpaði þjóðina á blaðamannafundi.

„Til að summa þetta upp í einni setningu, þá verður Hollandi lokað aftur frá og með morgundeginum. Það er óhjákvæmilegt, með fimmtu bylgjunni og á meðan Ómíkron dreifist jafnvel hraðar en við höfðum óttast. Við verðum nú að grípa inn í, í varúðarskyni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert