Gæti verið orðið of seint að bregðast við Ómíkron

Sajid Javid heil­brigðisráðherra Bretlands.
Sajid Javid heil­brigðisráðherra Bretlands. AFP

Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir að enn sé margt sem ekki er vitað um Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar, og varar við því að það gæti verið orðið „of seint“ til þess að bregðast við útbreiðslu afbrigðisins í Bretlandi.

Þetta kemur fram í grein sem Javid skrifaði í Telegraph í dag.

Flest smit afbrigðisins hafa greinst í Bretlandi og hefur kórónuveirusmitum fjölgað verulega í landinu síðan Ómíkron-afbrigðið fór að breiðast út þar. Ríflega 90.000 smit voru skráð í Bretlandi í gær. 

Sóttvarnaráðgjafar breskra stjórnvalda hafa áhyggjur af því að innlagnir á sjúkrahús í Englandi gætu náð 3.000 á dag á næstunni ef ekki verður gripið til hertra aðgerða. 

Víða um heim hafa ferðalög frá Bretlandi verið takmörkuð. Það hefur ekki verið gert hérlendis.

Virðist þurfa meira mótefnamagn gegn Ómíkron

Ómíkron-smit voru orðin ríflega 60 hér á landi fyrir helgi. 

Enn sem komið er virðast bóluefni gegn Covid-19 sem nú eru í umferð veita fólki ágætis vernd fyrir alvarlegum veikindum af völdum Ómíkron. Afbrigðið er mun meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar. 

Fólki hefur verið ráðlagt að fá örvunarskammt af bóluefni, sérstaklega vegna Ómíkron-afbrigðisins sem virðist þurfa meira mótefnamagn til þess að takast á við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert