Myndir frá björgunarsveitum hafa verið birtar sem sýna þegar tvö börn fundust eftir að skýstrókar gengu yfir bandaríska ríkið Kentucky í síðustu viku.
Börnunum hafði verið komið fyrir í baðkari af ömmu þeirra til að vernda þau frá óveðrinu. Baðkarið feyktist úr húsinu og lenti úti í garði. Þar fundu björgunarmenn börnin nánast ómeidd.
Börnin gátu aftur hitt ömmu sína áður en þau voru flutt á sjúkrahús, að sögn BBC.
Að minnsta kosti 76 hafa látist í Kentucky eftir að skýstrókarnir gengu þar yfir. Eignatjón er jafnframt gríðarlegt.