Kanadískir dómstólar hafa dæmt írönsk stjórnvöld til þess að greiða yfir 80 milljónir dala í skaðabætur, sem samsvarar um 10,5 milljörðum króna, til sex fjölskyldna sem misstu ástvin þegar Íranar skutu niður úkraínska farþegaflugvél 8. janúar 2020.
Flug PS752 var skotið niður rétt eftir flugtak frá Tehran, höfuðborg Íran. 176 létust og þar af 85 kanadískir ríkisborgarar.
Þremur dögum eftir árásina viðurkenndu yfirvöld í Íran að hafa skotið niður flugvélina fyrir slysni.
Dómstólar í Kanada voru áður búnir að skilgreina atvikið sem hryðjuverk, og vegna þess gátu fjölskyldur þeirra látnu krafist bóta frá yfirvöldum í Íran.
Það er þó óljóst hvernig skaðbæturnar verða innheimtar frá Íran.
Yfirvöld í Íran segja ekkert fordæmi vera til staðar fyrir dómnum og fullyrða að kanadískir dómstólar skorti það dómsvald sem þarf til þess að komast að þessari niðurstöðu.
Í desember buðust yfirvöld í Íran til þess að borga fjölskyldum þeirra látnu, 150.000 evrur í skaðabætur sem jafngildir rúmum 22 milljónum króna.
Þessi tilkynning var harðlega gagnrýnd í Úkraínu og Kanada, og sagt að bætur ættu að vera ákvarðaðar af dómsstólum.