Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, gagnrýndi í kvöld Joe Biden, Bandaríkjaforseta, á Twitter vegna ummæla hans um innrás Rússlands í Úkraínu. Þar skrifaði Zelensky að „minniháttar innrás“ væri ekki til heldur hefðu innrásir alltaf afleiðingar.
Biden hafði talað um að „minniháttar árás“ á Úkraínu gæti leitt til vægari viðbragða frá Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra.
„Það eru engar minniháttar innrásir. Rétt eins og það eru engin minniháttar mannsföll og lítil sorg vegna missi ástvina,“ skrifaði Zelensky á Twitter.
We want to remind the great powers that there are no minor incursions and small nations. Just as there are no minor casualties and little grief from the loss of loved ones. I say this as the President of a great power 🇺🇦
— Володимир Зеленський (@ZelenskyyUa) January 20, 2022
Her Rússlands heldur áfram að safnast saman við landamærin að Úkraínu, þrátt fyrir diplómatískar tilraunir Vesturlanda síðustu vikur til að koma í veg fyrir innrás Rússa í Evrópuríkið.
Samkvæmt nýjustu greiningu varnarmálaráðuneytisins í Kænugarði, sem fréttastofa CNN fékk að líta augum á þriðjudag, hefur Rússland nú sent fleiri en 127 þúsund hermenn á svæðið.
Í lok desember og það sem af er janúar er herinn einnig sagður hafa flutt „birgðir skotfæra, færanleg sjúkrahús og öryggisþjónustur“ að landamærunum, sem í greiningunni er talið „staðfesta undirbúning sóknaraðgerða“.