Fyrstu flugvélarnar sem flytja hjálpargögn til Tonga í Kyrrahafi eru komnar til landsins.
Ekki hefur verið hægt að fljúga til eyjarinnar síðan á laugardaginn eftir að flóðbylgja gekk þar yfir í kjölfar neðansjávareldgoss.
Embættismenn sögðu að herflugvélar frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi hafi lent á flugvellinum í Tonga, sem hafði fram að því verið þakinn ösku eftir eldgosið.
Hamfarirnar hafa haft áhrif á yfir 80% þeirra 100 þúsund íbúa sem búa á eyjunni, samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna. Brýn þörf er talin á drykkjarvatni fyrir íbúana.
Eldgosið sem braust út í Tonga-eyjaklasanum var að öllum líkindum kraftmesta gos aldarinnar hingað til, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.