Hersveitir NATO yfirgefi Rúmeníu og Búlgaríu

Vladimir Pútín.
Vladimir Pútín. AFP

Rússnesk stjórnvöld vilja að hersveitir NATO yfirgefi Rúmeníu og Búlgaríu, sem hluta af þeim kröfum sem þeir hafa sett fram gagnvart bandlagi ríkja sem Bandaríkin leiða.

Utanríkisráðuneyti Rússa greindi frá þessu. Rússar vilja að „erlendar hersveitir, vélar og vopn“ frá löndum sem voru ekki meðlimir í NATO fyrir árið 1997 dragi sig í burtu, þar á meðal Búlgaría og Rúmenía.

Blinken, til hægri, á leið inn á hótel í Genf …
Blinken, til hægri, á leið inn á hótel í Genf í morgun. AFP

Í dag eru fyrirhugaðar viðræður Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Aðeins ellefu dagar eru liðnir síðan fulltrúar þeirra hittust í borginni Genf í Sviss.

Þar samþykktu fulltrúarnir að halda áfram viðræðum vegna tuga þúsunda hermanna sem Rússar hafa stillt upp við úkraínsku landamærin.

Viðræðurnar 10. janúar stóðu yfir í tæpar átta klukkustundir en í dag er búist við hnitmiðuðum viðræðum þar sem rætt verður hvort samkomulag getur náðst í þessu viðkvæma máli.

Liz Truss.
Liz Truss. AFP

Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands,  varaði Rússa sterklega við því að ráðast inn í Úkraínu í ræðu sem hún hélt í Ástralíu og beindi orðum sínum sérstaklega að Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Hann „hefur ekki lært af sögunni,“ sagði Truss og hvatti Pútín til að „færa sig í burtu frá Úkraínu áður en hann gerir stór mistök.“

„Innrás mun aðeins leiða til hræðilegs kviksyndis og mannfalls eins og við vitum eftir stríð Sovétmanna í Afganistan og deilunnar í Tsjetsjeníu,“ sagði hún og vísaði í fyrri átök þar sem hundruð þúsunda létust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert