Munu opna „rússnesku dúkkurnar“

Johnson hét hörðum refsiaðgerðum ef Rússar myndu ráðast inn í …
Johnson hét hörðum refsiaðgerðum ef Rússar myndu ráðast inn í Úkraínu. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hét því í dag að bresk stjórnvöld myndu „opna Matryoshka-dúkkur rússneskra fyrirtækja“ til að komast að því hverjir væru þar að baki, ef það kemur til innrásar Rússa í Úkraínu. Þá yrði Rússum gert ómögulegt að afla sér fjármagns á breskum mörkuðum. 

Johnson ávarpaði öryggisráðstefnuna í München fyrr í dag, og varaði þar við því að innrás Rússa í Úkraínu myndi hafa hræðileg áhrif um alla veröld. „Ef ráðist verður inn í Úkraínu, verður höggbylgjunnar vart um víða veröld. Hún mun heyrast í Asíu, í Taívan,“ sagði Johnson og bætti við að forsætisráðherrar Japans og Ástralíu hefðu báðir sagt við sig að innrásarinnar yrði vart hinum megin á hnettinum. 

Johnson hét því að rússnesk fyrirtæki í Bretlandi yrðu opnaðar …
Johnson hét því að rússnesk fyrirtæki í Bretlandi yrðu opnaðar eins og rússneskar dúkkur til að komast að eignarhaldi þeirra. AFP

Þá varaði Johnson við að ef Rússum tækist að ráðast inn í Úkraínu myndi það senda þau skilaboð til allra ríkja að árásargirni borgaði sig, og að rétturinn lægi hjá hinum máttugu. Ekki yrði litið framhjá alvarleika þessarar stundar í sögu Evrópu. Ríki Evrópu þyrftu því að standa saman í utanríkismálum, varnarmálum og í orkumálum. 

Sagði Johnson að nú þyrftu ríki Evrópu að venja sig af jarðgasi og olíu frá Rússum, og að ekki yrði lengur litið framhjá því hvernig Gazprom hefði möndlað með jarðgasbirgðir Evrópu. 

Ekki ný Jalta-ráðstefna

Johnson varaði jafnframt við því að ríki Evrópu gætu ekki leyft sér að vera kúguð af Rússlandi til hlýðni, og að hættan af árásum Rússa mætti ekki breyta öryggisumhverfi Evrópu. 

„Við megum ekki leyfa nýja Jalta-ráðstefnu, nýja skiptingu álfunnar okkar í áhrifasvæði,“ sagði Johnson og vísaði þar til ráðstefnunnar í febrúar 1945, þar sem Roosevelt Bandaríkjaforseti, Winston Churchill, forsætisráðherra Breta og Jósef Stalín, einræðisherra Sovétríkjanna ræddu örlög Evrópu eftir lok síðari heimsstyrjaldar, en á þeirri ráðstefnu var afráðið að Sovétmenn myndu hafa mest að segja um stjórnarfar í ríkjum Austur-Evrópu. 

Frá Jalta-ráðstefnunni.
Frá Jalta-ráðstefnunni. mbl.is


Refsiaðgerðir verði harðar

Bresk stjórnvöld hafa löngum verið gagnrýnd fyrir lagaramma sinn, sem gerir auðjöfrum auðveldara fyrir að fela eignarhald sitt í fyrirtækjum. Hét Johnson því að Rússum yrði engin skjól í því, ef þeir réðust inn í Úkraínu, og að refsiaðgerðir Breta myndu ná til bæði einstaklinga og fyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert