Ástralar refsa átta háttsettum Rússum

Scott Morrison á blaðamannafundi.
Scott Morrison á blaðamannafundi. AFP

Áströlsk stjórnvöld hafa tilkynnt refsiaðgerðir gegn átta af helstu öryggisráðgjöfum Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta vegna innrásar Rússa í Úkraínu, sem þau segja hafa verið gerða án leyfis, án þess að Rússum hafi verið ögrað og að hún sé óásættanleg.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, tilkynnti refsiaðgerðirnar, sem eru í miklu samræmi við refsiaðgerðir annarra bandamanna Bandaríkjanna.

Þessir átta aðilar rússneska öryggisráðsins eru beittir ýmsum refsiaðgerðum, meðal annars ferðabanni, auk þess sem áströlsk stjórnvöld munu einnig beina sjónum sínum að rússneskum bönkum sem tengjast hernum.

„Þeir hegða sér eins og bófar og hrekkjusvín,“ sagði Morrison, sem spáði því að allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu væri líkleg „á næstu 24 klukkustundum“.

Ástralar eru hluti af bandalagi fimm þjóða, Five Eyes, sem deila með sér leynilegum upplýsingum. Í bandalaginu eru einnig Bandaríkin, Bretland, Kanada og Nýja-Sjáland.

„Ástralar munu alltaf beita sér gegn þeim sem vaða yfir aðra og við ætlum að standa uppi í hárinu á Rússum,“ sagði Morrison.

Morrison kvaðst einnig ætla að flýta vegabréfsáritun fyrir um 430 Úkraínumenn sem vilja komast til Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert