Herinn nær allur búinn undir innrás

Bifreiðar rússneskar hersins í Rostov-héraði í Rússlandi fyrr í dag.
Bifreiðar rússneskar hersins í Rostov-héraði í Rússlandi fyrr í dag. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti er um það bil eins reiðubúinn og hann getur verið, fyrir allsherjar innrás í Úkraínu. Nærri hundrað prósent alls nauðsynlegs herliðs hans hafa þegar stillt sér upp fyrir átök.

Þetta tjáir embættismaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins blaðamönnum.

„Við metum það svo að hann sé nærri 100% með allt það herlið sem við bjuggumst við að hann myndi færa inn. Hann er mjög nærri 100%,“ sagði embættismaðurinn í skjóli nafnleyndar.

Um 80% hersveita séu þá í árásarstöðu. Hlutfallið var metið 75% fyrir þremur dögum.

Pútín sótti athöfn í Moskvu í dag á árlegum degi …
Pútín sótti athöfn í Moskvu í dag á árlegum degi til heiðurs hermönnum. AFP

Gæti farið af stað á hverri stundu

Gert sé ráð fyrir að fleiri en 150 þúsund rússneskir hermenn bíði frekari skipana umhverfis Úkraínu, aðeins fáeinum kílómetrum frá landamærunum.

„Hann er jafn reiðubúinn og hann getur verið,“ sagði embættismaðurinn. „Hvort sem herinn fari eða ekki fer í raun eftir því sem Pútín vill. Hann gæti farið af stað á hverri stundu.“

Þvert á fyrri fregnir sagðist hann þá enn ekki geta staðfest að rússneskt herlið hefði farið yfir landamærin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert