Pútín úrhrak í samfélagi þjóða

Biden á blaðamannafundi í kvöld.
Biden á blaðamannafundi í kvöld. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti ítrekaði í kvöld að Bandaríkjaher muni ekki spila hlutverk í stríði Rússa og Úkraínu í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu snemma í morgun. 

Biden sagðist á blaðamannafundi hafa veitt heimild fyrir því að sveitir úr röðum barnaríska sjóhersins og landshersins sem staðsettar eru í Evrópu verði sendar austar í álfuna til ríkja bandamanna Bandaríkjanna í kjölfar innrásarinnar.

Biden hét því að Bandaríkin muni virða skuldbindingar sínar og verja önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, sér í lagi í Austur-Evrópu, en að bandarískt herlið muni ekki „berjast í Úkraínu“, heldur verja ríki Atlantshafsbandalagsins. 

Biden tilkynnti einnig í kvöld að aukið herlið verði sent til Þýskalands.

Forsetinn tók við spurningum að loknu ávarpi sínu.
Forsetinn tók við spurningum að loknu ávarpi sínu. AFP

Ekki í sambandi við raunveruleikann

Biden sakaði Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að vera ekki í sambandi við raunveruleikann, og sagði hann rússneska kollega sinn vilja stofna ný Sovétríki. 

„Metnaður hans er miklu stærri en Úkraína. Hann vill endurstofna Sovétríkin. Um það snýst þetta. Og ég held að áætlanir hans séu algjörlega á skjön við þann stað sem restin af heiminum er á,“ sagði Biden. 

Biden sagðist viss um að viðskiptaþvinganir og aðrar refsiaðgerðir Bandaríkjanna og Vesturlanda yfir höfuð eigi eftir að hafa áhrif á framgang Rússlands í Úkraínu. 

Biden sagði að Rússland yrði veikara.
Biden sagði að Rússland yrði veikara. AFP

Ræðir ekki við Pútín

„Þetta mun veikja stöðu lands hans. Hann mun þurfa að taka afar, afar erfiða ákvörðun um hvort að hann eigi að halda áfram á þessari braut, í átt að annars-flokks ríki,“ sagði Biden um Pútín. 

Forsetinn sagðist ekki ætla að ræða frekar við Pútín í kjölfar innrásarinnar og að Rússlandsforseti hafi gert sig að „úrhraki“ í alþjóðasamfélaginu. 

„Ákvörðun Pútín um að ráðast í óréttlætanlegt stríð við Úkraínu mun gera það að verkum að Rússland verður veikara og restin af heiminum sterkari,“ sagði Biden.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert