Innrás Hvíta-Rússlands í Úkraínu talin mjög líkleg

Gervihnattamynd af liðsöfnuði hvítrússneska hersins, tekin fyrr í vikunni.
Gervihnattamynd af liðsöfnuði hvítrússneska hersins, tekin fyrr í vikunni. AFP

Hvíta-Rússland mun nær örugglega ráðast inn í Úkraínu og her landsins þannig ganga til liðs við her Rússlands, en innrás hans hófst fyrir viku.

Þetta er mat bandaríska öldungadeildarþingmannsins Marco Rubio, en hann er einn átta þingmanna bandaríkjaþings sem fá reglulega upplýsingar frá leyniþjónustum þar í landi, embættis síns vegna.

Þar með er ekki öll sagan sögð.

Rubio deilir þessari skoðun sinni í tísti og lætur fylgja mynd af Alexander Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands, þar sem hann stendur og bendir á kort.

Ljóstrað upp um áformin?

Mynd þessi var gefin út að kvöldi mánudags, þegar Lúkasjenkó ávarpaði öryggisráð sitt á fundi.

Athygli hefur vakið í kjölfarið að svo virðist sem forsetinn hafi þarna ljóstrað upp um áform bandamanns síns, Vladimírs Pútín, um innrásina í Úkraínu.

Á kortinu má sjá örvar sem merkja leiðir fyrir rússneska herinn til að ráðast inn í Úkraínu, en hluti þeirra hefur þegar raungerst á fyrstu dögum innrásarinnar.

Til dæmis hefur herlið sótt að Kænugarði úr norðri og að borginni Kerson frá Krímskaga. Náði rússneski herinn borginni á sitt vald í gær.

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands.
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands. AFP

Rússar gætu viljað ráðast inn í Moldóvu

Á kortinu er Úkraínu einnig skipt í fjóra hluta, sem er í samræmi við það hvernig úkraínsku herstjórninni er skipt í fjögur svæði, eins og segir í umfjöllun breska dagblaðsins Telegraph.

En kortið sýnir sömuleiðis nokkrar árásir sem enn hafa ekki átt sér stað.

Þannig má sjá árásarlínur fara frá hafnarborginni Ódessa og inn í Moldóvu, sem gefur til kynna að Rússar hafi hugsað sér að ráðast inn í nágrannaríki Úkraínu.

Héldu sameiginlegar heræfingar fyrir innrásina

Úkraínsk stjórn­völd hafa sagt gögn sín gefa til kynna að um þrjú hundruð hví­trúss­nesk­ir skriðdrek­ar bíði færis við landa­mæri ríkj­anna í norðri.

Rúss­nesk og hví­trúss­nesk herlið héldu sam­eig­in­leg­ar heræf­ing­ar dag­ana áður en inn­rás Rúss­lands hófst í Úkraínu.

Hvíta-Rúss­land get­ur nú hýst kjarna­vopn og rúss­neskt herlið til fram­búðar, eft­ir breyt­ing­ar á stjórn­ar­skrá lands­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert