Risastökk fyrir Þjóðverja

Olaf Scholz þykir hafa stigið fram sem sterkur leiðtogi.
Olaf Scholz þykir hafa stigið fram sem sterkur leiðtogi. AFP

Rósa Magnúsdóttir, prófessor í sagnfræði við HÍ, og Gunnar Gunnarsson, sem var sendiherra Íslands í Moskvu 1994-98, eru sammála um að viðbrögð Þjóðverja við stríðinu í Úkraínu sæti verulegum tíðindum.

Gunnar segir viðbrögðin stórmerkileg. Þar um slóðir tali menn um vatnaskil. „Það er mjög veigamikil breyting hjá Þjóðverjum þegar þeir samþykkja að senda Úkraínumönnum vopn og lýsa yfir mikilli hækkun útgjalda til varnarmála á næstu árum. Þetta er risastökk fyrir Þjóðverja og mun stærra en gert hefur verið úr í fjölmiðlum. Það er alveg ljóst að Þjóðverjar ætla sér að verða meiri þátttakendur á alþjóðavettvangi. Efnahagslega eru þeir auðvitað ótvírætt forysturíki í Evrópu en þeirra stríðssaga er með þeim hætti að hún setur hlutina í sérstakt samhengi. Olaf Scholz hefur með þessu útspili nú stigið fram sem afgerandi forystumaður og fróðlegt verður að sjá hvað gerist í framhaldinu.“

Hafa þótt of linir gegnum tíðina

Rósa segir stefnubreytinguna sem orðið hefur í Þýskalandi gríðarlega áhugaverða. „Til þess verður sérstaklega horft þegar við förum að gera þetta stríð upp. Rússar sem gagnrýna Pútín hafa lengi kallað eftir hertum aðgerðum af hálfu Þjóðverja sem þeim finnst hafa verið of linir gegnum tíðina gagnvart honum. Það á sér auðvitað sögulegar skýringar en Þjóðverjar hafa lengi stigið varlega til jarðar gagnvart Rússlandi út af síðari heimsstyrjöldinni. Einmitt þess vegna verður fróðlegt að sjá hvernig staða Þýskalands á eftir að þróast.“

– Hvers vegna heldurðu að þeir geri þetta núna?

„Þeim er örugglega bara ekki stætt á öðru. Vígvæðing Þýskalands hefur verið algjört tabú fram á þennan dag út af sögunni en nú sjá þeir sér ekki annað fært en að standa með Úkraínu. Ekki nóg með það, þetta þýðir líka að Þjóðverjar verða að skuldbinda sig í mikla fjárhagsaðstoð við Úkraínu þegar þessu öllu lýkur. Það verður skýr krafa á Þjóðverja að standa sína plikt.“

Nánar er rætt við Rósu og Gunnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert