Sigur Rússa ekki óumflýjanlegur

Antony Radakin, yfirmaður breska hersins.
Antony Radakin, yfirmaður breska hersins. AFP

Forystusveitir Rússa hafa verið „stráfelldar” í Úkraínu og þar af leiðandi er ekki óumflýjanlegt að þeim takist að ná yfirráðum í landinu, sagði Sir Antony Radakin, yfirmaður breska hersins. Sunday Times greinir frá.

Radakin sagði Rússa „hafa komið sér í klandur“, með innrásinni í Úkraínu sem „gengi ekki vel.“

Rússar gætu aukið ofbeldið

Hann varaði við því að Rússar gætu aukið ofbeldið með „frekari tilviljanakenndum drápum og tilviljanakenndu ofbeldi“, til að bregðast við andspyrnu Úkraínumanna.

„Við sjáum líka að heimurinn er að koma saman með eina nálgun, hvort sem það er að beita Rússa þrýstingi með efnahagslegum, díplómatískum, menningarlegum, félagslegum eða hernaðarlegum þrýstingi. Það þarf að halda því áfram svo að Rússar stöðvi innrásina,“ sagði Radakin.

„Við verðum að halda áfram að koma Rússum í skilning um að þetta sé svívirðilegt og það að þeir verði bara meira og meira kærulausir í beitingu ofbeldis vegna þess að innrás þeirra gengur ekki vel, sé algjörlega óviðunandi.

Lokun á lofthelgi Úkraínu myndi ekki hjálpa

Radakin sagði að lokun á lofthelgi yfir Úkraínu myndi ekki hjálpa og myndi þess í stað auka átök. „Ráðin sem við sem háttsettir hernaðarsérfræðingar erum að gefa stjórnmálamönnum okkar er að forðast að gera hluti sem eru taktískt ómarkvissir og að forðast að gera hluti sem taktískt gætu leitt til misreiknings eða stigmögnunar.“

„Lokun á lofthelgi myndi ekki hjálpa. Megnið af skothríðinni kemur frá stórskotaliði, megnið af eyðileggingunni kemur frá stórskotaliði, hún kemur ekki frá rússneskum flugvélum,“ bætti hann við.

Stríðinu hvergi nærri lokið

Dominic Raab, varaforsætisráðherra Bretlands, sagði að stríðið í Úkraínu muni vara í „að minnsta kosti mánuði“.

„Ég held að þeir séu að ljúga að sjálfum sér sem héldu að innan nokkurra daga yrði þetta búið. Þetta mun að minnsta kosti taka mánuði að leysa. Og þess vegna þurfum við að vera í þessu til lengri tíma litið. Þess vegna hefur forsætisráðherrann sagt að þetta megi ekki verða talið eðlilegt ástand.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert