Málarekstur gegn Paolo Macchiarini, ítalska lækninum sem græddi plastbarka í sjúklinga á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, hófst í Solna í Svíþjóð í gær.
Macchiarni er ákærður fyrir gróft ofbeldi gegn þremur sjúklingum sem hann græddi plastbarka í á árunum 2011 og 2012. Létust allir sjúklingarnir en að minnsta kosti einn þeirra var ekki talinn í lífshættu áður en aðgerðin var framkvæmd. Þessi þrjú tilfelli áttu sér stað í Svíþjóð en utan Svíþjóðar framkvæmdi Macchiarini fimm sambærilegar aðgerðir og eru þeir sjúklingar einnig látnir.
Saksóknarinn í málinu sagði í gær að íhlutunin var í trássi við vísindin og sannreyndar aðferðir en Macchiarini hefur hingað til byggt vörn sína á því að hann hafi einungis verið að sinna starfi sínu sem læknir.
Talið er að málareksturinn muni standa í þrettán daga en mál læknisins var tekið upp að nýju í Svíþjóð árið 2018.
Árið 2018 úrskurðaði rektor Karólínska háskólasjúkrahússins að sjö læknar hefðu gerst sekir um vísindalegt misferli. Þar á meðal var Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir við Landspítala, en sjúklingur hans, Andemariam Teklesenbet Beyene, var árið 2011 fyrsti til að undirgangast aðgerðina. Hann lést árið 2014.
Fram hefur komið í rannsókn sænsku vísindasiðanefndarinnar, og í skýrslu nefndar á vegum Landspítala og Háskóla Íslands vegna málsins, að Tómas hafi sagt ósatt um ástand sjúklingsins í tilvísun sinni til Macchiarini.