Yfirvöld í Rússlandi segja að samkomulag hafi náðst um vopnahlé í hafnarborginni Maríupol í Úkraínu svo hægt sé að flytja særða frá Asovstal-stálverksmiðjunni þar sem fjöldi Úkraínumanna hefur leitað skjóls síðustu vikur.
„Samkomulag náðist við fulltrúa úkraínska hersins sem situr fastur í Asovstal í Maríupol um að flytja hina særðu,“ sagði í yfirlýsingu rússneska varnarmálaráðuneytisins.
Borgin Maríupol hefur verið undir stöðugum árásum Rússa sem hófust skömmu eftir að stríðið byrjaði í lok febrúar. Lengi voru íbúar fastir í borginni án vatns og rafmagns en erfitt var fyrir borgarbúa að flýja vegna umsáturs rússneska hersins.
Landfræðileg staðsetning Maríupol er afar mikilvæg og hafa Rússar staðið í ströngu við að ná borginni á sitt vald, sem virðist nú hafa tekist.
Á síðustu vikum hefur tekist að flytja hundruð íbúa, sem ekki tókst að flýja fyrr, úr borginni en nokkur hundruð úkraínskra hermanna eru þó enn eftir í stálverksmiðjunni og eru margir þeirra slasaðir.