Fyrrverandi forseti Moldóvu, Igor Dodon, var handtekinn og færður í gæsluvarðhald í dag vegna gruns um landráð og spillingu. Dodon var forseti Moldóvu frá 2016 til 2020 og var opinberlega studdur af stjórnvöldum í Rússlandi.
Að sögn Mariönu Chiorpec, talsmanns saksóknara í Moldóvu, var Dodon færður í gæsluvarðhald til 72 tíma. Sætir Dodon rannsókn vegna gruns um landráð, fjárgreiðslur frá glæpasamtökum, ólöglega fjáraukningu og annars konar spillingu.
Átök í Úkraínu sem deilir landamærum með Moldóvu hafa hækkað spennuna þar í landi töluvert. Moldóva sækist nú eftir því að ganga í Evrópusambandið undir stjórn nýs forseta, Maia Sandu. Flestir í Moldóvu tala rúmensku en þar í landi er stór minnihluti sem talar rússnesku, í héraðinu Transnistríu.
En íbúar héraðsins eru að mestu leyti aðskilnaðarsinnar við Moldóvu og vilja verða hluti af Rússlandi. Margir í Moldóvu óttast því að geta orðið næsta skotmark Rússlands.