Félagsmenn sænska hægriflokksins, Moderaterna, eiga erfitt með að vita hvernig þeim eigi að líða með stöðuna í sænsku kosningunum. Útlitið nú er vissulega mun betra en kannanir og útgönguspá gerði ráð fyrir, þó er ljóst að flokkurinn verður ekki lengur sá næst stærsti í landinu.
Flokksmenn voru komnir á það stig að drekkja sorgum sínum er blaðamann bar að garði á kosningavöku flokksins sem haldin er á Clarion Hotel Sign í Stokkhólmi. Búið var að slökkva á hljóðinu í sjónvarpinu og plötusnúður lét bassann í ónefndu júrópopplagi dúndra.
Það var um 22:40 að staðartíma sem stemmingin breyttist nokkuð því skyndilega voru hægriflokkarnir komnir með meira fylgi en vinstriflokkarnir og hugsanlega eins þingmanns meirihluta.
Brutust eðlilega út fagnaðarlæti en þagnaði fljótlega enda birtust þá tölur fyrir hægriflokkinn. Ekki bara tapar flokkurinn fylgi en hann er nú þriðji stærsti flokkurinn. Að leiða minnihlutastjórn háð velþóknun stórs þingflokks Svíþjóðardemókrata er ekki sú staða sem Ulf Kristersson hafði séð fyrir sér.
Slökkt er á tónlistinni og fagnað þegar sænska ríkissjónvarpið, SVT, skiptir yfir á kosningavökuna. Milli þess stara gestirnir á sjónvarpið og síma og virðast fæstir vilja tjá sig mikið um stöðuna. „Við sjáum til hvernig endar,“ eru kannski helstu viðbrögðin.
Ljóst þykir að úrslit kosninganna mun ekki liggja fyrir í bráð. En óháð því er talið að viðræður um myndun ríkisstjórnar verða ekki einfaldar, enda hefur frjálslyndi flokkurinn skýrt hafnað því að komið verði til móts við Svíþjóðardemókratanna á sviði innflytjendamála. Þá eru einnig uppi efasemdir innan hægriflokkanna um að hægt verði að mynda heildstæða efnahagsstefnu með Svíþjóðardemókrötum.