Frumniðurstöður boða sigur hægriblokkarinnar

Sænskir Demókratar eru þó hástökkvarar og í raun sigurvegarar kosninganna, …
Sænskir Demókratar eru þó hástökkvarar og í raun sigurvegarar kosninganna, en miðað við frumniðurstöður eru þeir annar stærsti flokkurinn á eftir Jafnaðarmannaflokknum. AFP

Hægriblokkin, leidd af Ulf Kristersson, formanni Moderatarna, fær í sinn hlut samtals 176 sæti á þingi, en það er þremur fleiri en vinstriblokkin undir forystu Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem hlýtur 173 þingsæti. 

Eru þetta þær tölur sem liggja fyrir eftir að 94 prósent atkvæði hafa verið talin. Sænska ríkissjónvarpið hefur útnefnt ofangreint sem frumniðurstöður kosninga 2022. 

Kosningavakan var sannkallaður spennutryllir, en lengi var munurinn á hægri- og vinstriblokkinni innan við eitt prósent. 

Endanleg úrslit liggja þó ekki fyrir fyrr en á fimmtudag, þegar utankjörfundaratkvæði verða talin.

Svíþjóðardemókratar næststærsti flokkurinn

Ljóst var í aðdraganda kosninganna að mjótt yrði á munum, en óvæntustu úrslitin voru þau að Svíþjóðardemókratar bættu við sig 10 þingmönnum og eru nú orðnir annar stærsti flokkurinn í sænskum stjórnmálum. 

Flokkurinn á rætur sínar að rekja til nýnasistahreyfingar, og fyrir kosningarnar 2018 lýsti Ulf Kristerssen því yfir að hann myndi ekki eiga í samstarfi við flokkinn. Sænskir stjórnmálafræðingar telja Kristerssen því vera í strembinni stöðu þegar kemur að stjórnarmyndun.

Leiðtogar flokkanna áttu erfitt með að tjá sig í kosningavöku sænska ríkissjónvarpsins, enda ógerningur að átta sig fyllilega á því hverjar niðurstöðurnar yrðu fyrr en lokatölur lægju fyrir. 

Hin svokallaða vinstriblokk, undir stjórn Magdalenu Andersson, samanstendur af Jafnaðarmannaflokknum, Græningjum og Vinstri flokknum.

Hægriblokkin er sá ríkisstjórnarmöguleiki sem væri undir stjórn Ulfs Kristerssonar, formanns Moderatarna. Kristilegir demókratar, Frjálslyndi flokkurinn og Svíþjóðardemókratar kæmu til með að mynda það samstarf.

Miðflokkurinn var orðaður við það að halla sér til hægri í aðdraganda kosninga, en flokkurinn tapaði fylgi frá síðustu kosningum, ef marka má frumniðurstöður, og hefur því hlotið 6,7 prósent atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka