Fannst látinn á eyju

Hluti strandlengju Russky-eyjar, eða Ру́сский о́стров eins og hún heitir …
Hluti strandlengju Russky-eyjar, eða Ру́сский о́стров eins og hún heitir á rússnesku. Eyjan er örskammt sunnan við Vladivostok þar sem Ivan Pechorin sat ráðstefnu með Pútín fyrir skemmstu. Ljósmynd/Wikipedia.org/Straitgate

Dánartíðni fyrirmenna í rússneska orkugeiranum hækkar nánast með hverjum deginum. Ekki er nema um hálfur mánuður síðan Ravil Maganov, stjórnarformaður olíufyrirtækisins Lukoil, féll á dularfullan hátt út um glugga sjúkrahúss og lést eftir að hafa gagnrýnt innrás Rússa í Úkraínu.

Á laugardaginn var Ivan Pechorin, forstjóri orkufyrirtækisins Far East and Arctic Development Corporation, úrskurðaður látinn eftir að líki hans skolaði upp á strönd eyjarinnar Russky, suður af Vladivostok. Var því slegið föstu að dánarorsökin hefði verið drukknun eftir að hann féll fyrir borð þar sem hann var staddur í veislu um borð í skipi við austurströnd Rússlands.

Forveri hans í starfi, Igor Nosov, lést sviplega í febrúar, að því er talið er af völdum heilablóðfalls, en Nosov var 41 árs gamall, fæddur árið 1978.

Fundust látnir ásamt eiginkonum og dætrum

„Fráfall Ivans er ólýsanlegur missir vinum hans og samstarfsfólki og er skarð fyrir skildi hjá fyrirtækinu,“ sagði í yfirlýsingu Far East að Pechorin látnum. Aðeins örfáum dögum áður hafði Pechorin setið viðskiptaráðstefnu í Vladivostok með Vladimír Pútín forseta þar sem umræðuefnið var meðal annars hvernig Rússland gæti yfirunnið viðskiptaþvinganir umheimsins vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Þá má ekki gleyma fleiri hátt settum stjórnendum orkufyrirtækja, svo sem Sergei Protosenya, stofnanda gasfyrirtækisins Novatek, en lík hans, eiginkonu hans og dóttur fundust í glæsivillu á Spáni í apríl. Í þeim sama mánuði fannst Vladislav Avayev, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Gazprombank, látinn á heimili sínu í Moskvu, einnig ásamt eiginkonu og dóttur, og í maí lést Alexander Subbotin, sem eitt sinn var innsti koppur í búri Lukoil, úr hjartaáfalli í kjölfar þess er hann leitaði sér óhefðbundinna lækninga hjá andalækni, eða „shaman“.

Þá átti Alexander Tyulyakov, aðstoðarforstjóri Gazprom, að hafa fyrirfarið sér en hann fannst látinn í sumarbústað utan við Pétursborg í febrúar.

Ivan Pechorin er níundi rússneski viðskiptajöfurinn sem lætur lífið af slysförum, fyrir eigin hendi eða af völdum vanútskýrðs sjúkdómsástands á rúmlega hálfu ári. Eitt áttu hinir látnu allir sameiginlegt fyrir utan viðskiptalífið – náin tengsl við Pútín forseta.

Newsweek

Daily Mail

BBC (Ravil Maganov)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka