„Á hraðri leið til loftslagshelvítis“

Mannkynið er að berjast fyrir lífi sínu vegna aukinna þurrka, flóða og hitabylgja af völdum loftslagsbreytinga.  Þetta sagði Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, á loftslagsráðstefnu SÞ, COP27 í Egyptalandi.

Á sama tíma og alþjóðleg efnahagslægð ríkir vegna Covid-19, innrásar Rússa í Úkraínu og öfga í veðurfari, sagði Guterres að alþjóðasamfélagið stæði frammi fyrir hreinum og klárum valkostum.

„Vinnið saman eða farist,“ sagði hann við leiðtoga á ráðstefnunni. „Það er annað hvort sáttmáli um samstöðu í loftslagsmálum eða sameiginlegur sjálfsvígssáttmáli.“

Guterres kallaði eftir „sögulegum“ samningi á milli ríkra þjóða og annarra með það að markmiði að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og halda hitastiginu í samræmi við markmið Parísarsáttmálans um það fari ekki yfir 1,5 stig frá iðnbyltingu.

Antonio Guterres flytur ræðu sína í Egyptalandi í morgun.
Antonio Guterres flytur ræðu sína í Egyptalandi í morgun. AFP/Joseph Eid

Hann sagði að markmiðið ætti að vera að útvega endurnýjanlega orku og orku sem allir hafa efni á og hvatti sérstaklega þær þjóðir sem losa mest af gróðurhúsalofttegundum, Bandaríkin og Kína, til að leggja meira af mörkum.

Varðandi stöðuna sem er uppi núna sagði Guterres. „Við erum á hraðri leið til loftslagshelvítis með fótinn enn á bensíngjöfinni“.

Hlýnunin er þegar komin í um 1,2 stig frá iðnbyltingu og gætir áhrifa víða vegna þess. Til að mynda hafa miklir þurrkar geisað í Afríku og eru milljónir manna þar á barmi hungursneyðar. Mannskæð flóð hafa gengið yfir Pakistan og eyðilagt innviði. Tjón af völdum loftslagstengdra hamfara þar í landi nemur yfir 30 milljörðum Bandaríkjadala, að sögn Alþjóðabankans.

Guterres (í miðjunnji) ásamt öðrum fundargestum.
Guterres (í miðjunnji) ásamt öðrum fundargestum. AFP/Joseph Eid
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert