Fjórum árum eftir að hún hóf loftslagsbaráttu sína segist Greta Thunberg vera tilbúin til að láta aðra taka við keflinu og vera í fremstu víglínu.
„Við eigum einnig að hlusta á skýrslur og reynslu þess fólks sem verður fyrir mestum áhrifum af loftslagsvánni. Það er kominn tími til að láta gjallarhornið af hendi til þeirra sem virkilega hafa einhverjar sögur að segja,“ sagði Thunberg, sem er 19 ára, í samtali við sænsku fréttastofuna TT.
Eftir að hafa hvatt almenning á undanförnum árum til að „hlusta á vísindin“ sagði Thunberg að heimurinn þurfi núna á „nýjum sjónarhornum“ að halda.
Eins manns mótmæli Thunberg fyrir utan sænska þinghúsið eru orðin að stórri alþjóðlegri hreyfingu sem milljónir ungmenna hafa tekið þátt í. Mótmælin hafa leitt af sér mikla umræðu um hættuna af völdum loftslagsbreytinga.
Thunberg sagðist í viðtalinu fyrst hafa talið að þörf væri á brýnni umræðu um loftslagsmál í von um að bjarga heiminum fyrir komandi kynslóðir. En með tímanum, sagði hún, hefur hún áttað sig á því að loftslagsvandinn hefur nú þegar í för með sér miklar og slæmar afleiðingar fyrir almenning.
„Þess vegna verður það ennþá meiri hræsni þegar fólk í Svíþjóð segir til dæmis að við höfum tíma til að aðlagast og að við eigum ekki að óttast hvað gerist í framtíðinni,“ sagði hún.
Thunberg hafði áður greint frá því að hún ætlaði að ekki að taka þátt í ráðstefnunni COP27, sem hefst í dag. Sagði hún ráðstefnuna vera vettvang fyrir „grænþvott“.