Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27, sem átti að ljúka í dag, verður haldið áfram til morguns þar sem vonast er til að hægt verði að ná einhverjum árangri í umræðunni um að koma á fót bótasjóði fyrir þau ríki sem verða hvað verst úti vegna loftslagsbreytinga. Ráðstefnan fer fram í Egyptalandi og hefur staðið yfir frá 6. nóvember.
Stjórnandi ráðstefnunnar, Sameh Shoukry, utanríkisráðherra Egyptalands, sagði að skipta þyrfti um gír í dag þar sem tíminn ynni ekki með fulltrúum á ráðstefnunni.. „Mér ber skylda til að ljúka þessari ráðstefnu á morgun á nokkuð snyrtilegan hátt,“ sagði Shoukry við gesti ráðstefnunnar þegar hann greindi þeim frá framlengingunni.