Hvað gerðist á COP27?

Loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna COP27 lauk í gær.
Loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna COP27 lauk í gær. AFP/Ahmad Gharabli

Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27 sem fór fram í egypsku borginni Sharm el-Sheik, lauk í gær eftir að samningaviðræður um samkomulag ráðstefnunnar drógust um 40 klukkustundir.

En hvað fólst í því? Og er mannkynið enn á „hraðri leið til loftslagshelvítis“? Eins og Ant­onio Guter­res, aðal­rit­ari Sam­einuðu þjóðanna, sagði í ræðu sinni við upphaf COP27.

Í samantekt Guardian um ráðstefnuna segir einfaldlega að heimurinn standi enn „á barmi hamfara í loftslagsmálum“ eftir að samkomulag ráðstefnunnar náðist.

Þá segir að sérfræðingar í loftslagsmálum telji að stærstu hagkerfi heimsins verði að taka á sig nýjar skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Hve mikið? Hver? Og á hvaða grundvelli?

COP27 verður líklega helst minnst sem ráðstefnunnar þar sem í fyrsta sinn náðist samkomulag um að koma á svokölluðum loftslagshamfarasjóð sem er ætlað að aðstoða þjóðir í viðkvæmri stöðu við að tak­ast á við af­leiðing­ar lofts­lags­breyt­inga.

Sjóðurinn verður stofnaður af ríkum ríkisstjórnum á innan við einu ári frá COP27, en hann hefur verið ein af aðalkröfum þróunarríkja síðustu 30 ár af loftslagsviðræðum. 

Sjóðurinn var samþykktur af nærri 200 ríkjum en hins vegar er enn ekki búið að semja um hversu mikið fé skuli renna til sjóðsins, af hverjum og á hvaða grundvelli.

Aðalmarkmið Evrópusambandsins í viðræðunum var að tryggja að lönd sem voru flokkuð sem þróunarríki árið 1992, er lofts­lags­samn­ingur Sam­einuðu þjóðanna var undirritaður, myndu fá fé úr loftslagshamfarasjóðnum.

Í samningnum frá 1992 segir að þeim þróunarríkjum beri engin skylda að bregðast við losun gróðurhúsalofttegunda eða leggja fram fé til að hjálpa öðrum. Meðal ríkja sem voru flokkuð sem þróunarríki voru Kína, Sádi-Arabía og önnur Persaflóaríki, ásamt Rússlandi.

Samkomulag COP27 felur í sér að þessi ríki geti lagt sitt af mörkum á frjálsum grundvelli. 

Ábyrgð Kína

John Kerry, um­hverfiser­ind­reki rík­is­stjórn­ar Joe Biden, lagði sérstaka áherslu á ábyrgð Kína í yfirlýsingu sinni eftir að ráðstefnunni lauk. 

John Kerry, um­hverfiser­ind­reki rík­is­stjórn­ar Joe Biden, á ráðstefnunni í síðustu …
John Kerry, um­hverfiser­ind­reki rík­is­stjórn­ar Joe Biden, á ráðstefnunni í síðustu viku. AFP/Joseph Eid

„Að draga úr losun snýst um stærðfræði, ekki hugmyndafræði. Þess vegna eiga allar þjóðir hlutdeild í þeim ákvörðunum sem Kína tekur á þessum mikilvæga áratug,“ sagði hann.

Kína er það ríki í heiminum sem losar mest um gróðurhúsalofttegundir og er einnig næststærsta hagkerfi heimsins. Þá er það í öðru sæti, á eftir Bandaríkjunum, í að hafa losað mest um gróðurhúsalofttegundir frá iðnbyltingunni.

„Bandaríkin og Kína ættu að geta hraðað framförunum saman, ekki aðeins okkar vegna, heldur fyrir komandi kynslóðir. Og við erum öll vongóð um að Kína muni standa við alþjóðlega ábyrgð sína,“ sagði Kerry. 

1,5 gráðu markmiðið í öndunarvél

Nokkrar skuldbindingar sem Bretar stóðu fyrir á COP26, sem var haldin í Glasgow á síðasta ári, voru felldar úr lokasamningi COP27, aðallega að beiðni Sádi-Arabíu og annarra olíuríkja. Samkvæmt heimildum The Guardian áttu Kína, Rússland og Brasilía einnig þátt þar í.

Meðal þessara markmiða var að losun á heimsvísu nái hámarki fyrir árið 2025, í samræmi við markmiðið að takmarka hlýnun við 1,5 gráður. 

Mótmælendur í Sharm el-Sheik.
Mótmælendur í Sharm el-Sheik. AFP/Fayez Nureldine

Samkomulag COP27 kvað þó á um að halda 1,5 gráðu markmiðinu, en ekki endilega hvernig því yrði náð. 

Alok Sharma, for­seti COP26, var ekki ánægður með niðurstöðu ráðstefnunnar í Egyptalandi og sagði: „Ég sagði í Glasgow að púls 1,5 gráðu markmiðsins væri veikur. Því miður, þá er markmiðið enn í öndunarvél.“

Næsta loftslagráðstefna Sameinuðu Þjóðanna, COP28, mun fara fram að ári liðnu í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, sem er einn stærsti olíuútflytjandi heims.

Alok Sharma, for­seti COP26.
Alok Sharma, for­seti COP26. AFP/Drew Angerer/Getty Images
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka