Ákæra hóps í Eþíópíu sakar algóriþma samfélagsmiðilsins Facebook um að kynda undir útbreiðslu haturs og ofbeldis í borgarastyrjöldinni í ríkinu.
BBC greinir frá því að Abrham Meareg, sonur fræðimanns sem var skotinn til bana eftir að hafa orðið fyrir ofsóknum á Facebook, er á meðal þeirra sem stefnir Meta. Fyrirtækið rekur meðal annars Facebook og Instagram.
Hópurinn krefst tveggja milljarða dollara, eða um 280 milljarða króna, í sjóð handa fórnarlömbum hatursorðræðu sem birst hefur á Facebook vegna breytinga á algóriþmanum. Málið er nú hjá hæstarétt í Kenía.
Faðir Meareg var skotinn til bana 3. nóvember árið 2021 er hann var á leið heim til sín. Hótanir morðingjanna komu í veg fyrir að vitni komu manninum til aðstoðar er honum blæddi út. Hann lést sjö tímum síðar á jörðinni.
Áður en faðir Meareg var skotinn birtust færslur með meiðyrðum og persónulegum upplýsingum um hann á Facebook.
Færslurnar voru tilkynntar til Facebook, en að sögn Meareg voru þær einungis teknar niður þegar það var orðið of seint.
„Ef Facebook hefði bara hætt að breiða út hatursorðræðu og fylgst með færslum almennilega, þá væri faðir minn enn á lífi,“ sagði Meareg.
Hann sagðist vilja sjá til þess að engin fjölskylda myndi þjást líkt og fjölskylda hans hefur gert og óskaði eftir afsökunarbeiðni frá Meta.
Meta segist hafa fjárfest miklum peningum í að fjarlæga hatursorðræðu af miðlum þeirra.
Borgarastyrjöldin í Eþíópíu hófst í nóvember árið 2020 og hefur leitt til víðtækrar eyðileggingar og grimmdarverka. Þúsundir hafa látist og milljónir eru á flótta. Þá hefur styrjöldin leitt til þess að margir íbúar eru á barmi hungursneyðar.